Hálfvitar hálfvitanna

•4 desember, 2008 • 8 athugasemdir

Þá er það endanlega staðfest, landsbyggðin er annars flokks og það er því ekki þess virði að eyða tíma né fjármunum í að hafa samskipti við þau.  Þessum skilaboðum kom Páll útvarpsstjóri snyrtilega til skila þegar hann setti fram sparnaðartillögur Rúv, sem m.a. lúta að því að leggja niður eða stórlega minnka umsvif svæðisútvarpsstöðvanna.

Þetta staðfestir Morgunblaðið sem hefur komið út síðan 1913 og flestir landsmenn verið áskrifendur að, sérstaklega fyrr á tímum.  Þeir halda örugglega að þetta landsbyggðarfólk eigi enga peninga og því óþarfi að senda frítt Morgunblað inn á öll heimili landsins á fimmtudögum fram að jólum.  Tilefni þessara skrifa er frétt sem ég las um þetta mál á mbl.is sem ber titilinn ,,Morgunblaðið í aldreifingu fram að jólum“, hljómar vissulega vel en þegar betur var að gáð þá eru það auðvitað gullbörnin í Rvk og nágrenni sem fá að njóta.  Ætli þeir í markaðsdeild moggans geri sér grein fyrir því að landsbyggðaríbúar eru margir hverjir betur staddir fjárhagslega en blessað fólkið í Rvk, nei ég segi svona 🙂

Tengilinn á fréttina má sjá hér:  Mogginn að gefa útvöldum!

Mér var kennt í æsku að skilja ekki útundan, því miður gleymdi maður því stundum, en mér hefði aldrei dottið til hugar að halda veislu og gefa bara sjálfum mér að borða og láta gestina horfa á.

Ísbíllinn hér!

•2 desember, 2008 • 2 athugasemdir

Þegar ég var í eitt af mínum fyrstu skiptum á Dalvík, áður en ég flutti þangað, þá heyrði ég í ísbílnum.  Ók hann um þennan litla fína bæ hringjandi bjöllu sinni.  Þetta þótti mér merkilegt þ.e.a.s. að ísbíllinn færi í þéttbýli landsins, þar sem að ég mundi ekki að hafa séð hann keyra um götur Hafnarfjarðar á mínum uppeldisárum.  Ég mundi bara eftir að hann hefði komið þar sem ég var í sveit um tíma og svo um sumarbústaðarsvæði.  Helgu minni þótti örugglega borgarmalbikið geysla einum of mikið frá mér þar sem að mér þótti þetta afar merkilegt, en henni hefur tekist að kroppa smá af þessu malbiki af og klínt möl á mig í staðin.

Jæja núna bý ég nánast í miðborg Osló og í hverju heyrði ég áðan.  Jú ísbílnum, hann keyrir hérna um allar götur eins og óður sé þann 2. desember takk fyrir.  Ég hef heyrt í honum með reglulegu millibili í allt haust og þótt stórmerkilegt að þessi blessaði bíll fari hérna um allt, þegar búðir eru á hverju horni.  Þá er nú annað merkilegt, ísbílinn á ferð í dessember!!! Þá skil ég ekki að einhver kaupi sér ís í byrjun desember, þegar fólk á nóg með það að halda á sér hita, nema kannski litlu börnin.

N ó v e m b e r

•30 nóvember, 2008 • 4 athugasemdir

Er ekki rétt að fá smá jólaútlit á þessa síðu þar sem að aðventan er að hefjast?  🙂

Þá er þessum mánuði brátt öllum lokið.  Hann var fín og einstaklega fljótur að líða, mjög glaður með þessa 30 daga 🙂  Hlakka þó enn meira til þess næsta.

Ég hef bókað flug til fagra Íslands þann 16. desember (þriðjudagur).  Ég mun fljúga með Norwegian til Köben og þaðan með Iceland-Express til Íslands.  Með þessu sýni ég vanþóknum mína á Okurleiðum í þetta skiptið (á þó mjög líklega eftir að versla við þá aftur, enda ekki mikið úrval í boði).  En ég hefði hvort sem er ekkert komist beint frá Osló til Íslands með Okurleiðum, þar sem að vélin var ,,full“, þá bjóða þeir upp á flug til Köben með Sas og þaðan með vél sinni til fyrirheitna landsins.  Þannig að ég er mjög sáttur með þessa áætlun mína.

Skólinn gengur vel og allt á áætlun þar, eins og er, en það er nóg að læra…sem er ágætt.

Þá vitið þið þetta….eitthvað fleira sem þið viljið vita? 🙂

Kærar kveðjur, Helgi

Hitler & Icesave

•27 nóvember, 2008 • Færðu inn athugasemd

Orðlaus dag eftir dag

•27 nóvember, 2008 • 3 athugasemdir

Það er eitthvað um neikvæðni sem kemur inn á þetta blogg þessa dagana, því miður, en brátt verður breyting á því 🙂

EN nú er mér öllum lokið, vitlausara bankakerfi hef ég ekki kynnst og eiga þessir Norðmenn að fá orðu fyrir hægfara kerfi, þröngsýni og órökréttann hugsunarhátt.

Það er nefnilega svo að ég þarf að borga síðustu leiguna, sem er nota bene ekki ódýr.  Ég var búinn að taka út peninga í mörgum umferðum í hraðbanka og loks kominn með upphæðina sem er á annað hundrað þúsund krónur, þökk sé íslensku krónunni.  Kallinn alltaf jafn góður í viðskiptum.

Þá vildi leigusalinn minn að ég myndi millifæra í þetta skiptið því hann var í heimsreisu og hefur líklegast aldrei haft það betra í lífinu, enda með með Íslending í vinnu til að skaffa nautasteikurnar ofan í belginn á manninum.

Ég fór með peningana, í feitu umslagi, í bankann í gær.  Nei því miður getur þú ekki lagt þá inn hér, þú verður að fara í bankann sem hann er viðskiptavinur í.  Ég átti ekki orð yfir þessum stælum en sá þá ekki fyrir í hverju ég myndi lenda í sólahring síðar.

Var núna að koma úr blessuðum viðskiptabankanum sem var hinn rétti.  Stelpan rétti mér svakalegt blað sem þurfti að fylla út til þess eitt að geta gert þetta.  Ég skrifaði og skrifaði…..en svo kom orðið sem ég vildi ekki heyra: NEI.  Af því að ég er ekki með reikning í þessu risaeðlulandi þá get ég ekki lagt inn pening, það verður að millifæra svona.  Ég spurði hvort að ég gæti virkilega ekki lagt pening inn á reikning í öllu landinu….nei það getur þú ekki líklegast ekki.  Hún gat lítið sagt þegar ég sagði henni að bankakerfið hér í landi væri það vitlausta af öllum kerfum sem ég vissi um.

Því verð ég að gera það sem ég hefði betur gert í byrjun, hefði ég vitað að kallinn væri í Kambódíu, að láta millifæra þetta frá Íslandi.  Þetta þýðir það að ég sit núna á seðlum sem telja á annað hundrað þúsund og hef ekki hugsað mér að nota í þessu landi, nema kannski 10% af þeim.  Núna fer ég með bænir og vona að gengið versi alveg svakalega þegar íslenska krónan verður sett á flot og verði svoleiðis í einhvern tíma…..því þá get ég skipt þessum peningum í íslenskar krónur þegar ég kem til landsins og grætt tugi þúsunda.

….þarf því að fara að halda áfram að vona það versta……..bestu kveðjur H.

Passaðu þig bara!

•25 nóvember, 2008 • Færðu inn athugasemd

Hversu fyndið er þetta…..ég sé þetta alveg fyrir mér…..brjálaðir þessir norsarar:)

Mokaði kallinn bara með….

Jólaljós

•25 nóvember, 2008 • 2 athugasemdir

Mér þykir nokkuð sérstakt að hér í Osló er ekki eitt jólaljós komið upp, allavega hef ég ekki séð þau.  Nú er tæplega mánuður til jóla, en líklegast er þetta fólk ekkert að bruðla með rafmagnið.  Kannski verið að bíða eftir aðventunni…..