Hitler & Icesave

•27 nóvember, 2008 • Færðu inn athugasemd

Orðlaus dag eftir dag

•27 nóvember, 2008 • 3 athugasemdir

Það er eitthvað um neikvæðni sem kemur inn á þetta blogg þessa dagana, því miður, en brátt verður breyting á því 🙂

EN nú er mér öllum lokið, vitlausara bankakerfi hef ég ekki kynnst og eiga þessir Norðmenn að fá orðu fyrir hægfara kerfi, þröngsýni og órökréttann hugsunarhátt.

Það er nefnilega svo að ég þarf að borga síðustu leiguna, sem er nota bene ekki ódýr.  Ég var búinn að taka út peninga í mörgum umferðum í hraðbanka og loks kominn með upphæðina sem er á annað hundrað þúsund krónur, þökk sé íslensku krónunni.  Kallinn alltaf jafn góður í viðskiptum.

Þá vildi leigusalinn minn að ég myndi millifæra í þetta skiptið því hann var í heimsreisu og hefur líklegast aldrei haft það betra í lífinu, enda með með Íslending í vinnu til að skaffa nautasteikurnar ofan í belginn á manninum.

Ég fór með peningana, í feitu umslagi, í bankann í gær.  Nei því miður getur þú ekki lagt þá inn hér, þú verður að fara í bankann sem hann er viðskiptavinur í.  Ég átti ekki orð yfir þessum stælum en sá þá ekki fyrir í hverju ég myndi lenda í sólahring síðar.

Var núna að koma úr blessuðum viðskiptabankanum sem var hinn rétti.  Stelpan rétti mér svakalegt blað sem þurfti að fylla út til þess eitt að geta gert þetta.  Ég skrifaði og skrifaði…..en svo kom orðið sem ég vildi ekki heyra: NEI.  Af því að ég er ekki með reikning í þessu risaeðlulandi þá get ég ekki lagt inn pening, það verður að millifæra svona.  Ég spurði hvort að ég gæti virkilega ekki lagt pening inn á reikning í öllu landinu….nei það getur þú ekki líklegast ekki.  Hún gat lítið sagt þegar ég sagði henni að bankakerfið hér í landi væri það vitlausta af öllum kerfum sem ég vissi um.

Því verð ég að gera það sem ég hefði betur gert í byrjun, hefði ég vitað að kallinn væri í Kambódíu, að láta millifæra þetta frá Íslandi.  Þetta þýðir það að ég sit núna á seðlum sem telja á annað hundrað þúsund og hef ekki hugsað mér að nota í þessu landi, nema kannski 10% af þeim.  Núna fer ég með bænir og vona að gengið versi alveg svakalega þegar íslenska krónan verður sett á flot og verði svoleiðis í einhvern tíma…..því þá get ég skipt þessum peningum í íslenskar krónur þegar ég kem til landsins og grætt tugi þúsunda.

….þarf því að fara að halda áfram að vona það versta……..bestu kveðjur H.

Passaðu þig bara!

•25 nóvember, 2008 • Færðu inn athugasemd

Hversu fyndið er þetta…..ég sé þetta alveg fyrir mér…..brjálaðir þessir norsarar:)

Mokaði kallinn bara með….

Jólaljós

•25 nóvember, 2008 • 2 athugasemdir

Mér þykir nokkuð sérstakt að hér í Osló er ekki eitt jólaljós komið upp, allavega hef ég ekki séð þau.  Nú er tæplega mánuður til jóla, en líklegast er þetta fólk ekkert að bruðla með rafmagnið.  Kannski verið að bíða eftir aðventunni…..

Varðandi verðlagningu Icelandair

•24 nóvember, 2008 • 2 athugasemdir

Neytendasamtökin

Talsmaður neytenda

Fréttastofa Sjónvarps

Fréttastofa Stöðvar 2

Visir.is

Fréttablaðið

Morgunblaðið

Kastljós

Dr. Gunni

 

Afrit einnig sent til Upplýsingarfulltrúa Icelandair

 

Mánudagur 24. Nóvember 2008

 

Efni:  Varðandi verðlagningu Icelandair

Mig langar að senda inn fyrirspurn, eða kvörtun vegna viðskiptahátta Icelandair.  Þannig er að ég hef nýtt mér talsvert þá einokunarþjónustu sem þeir bjóða upp á sl. hálft ár á flugleiðinni Reykjavík – Osló vegna náms míns hér erlendis.

Á þessum tíma hef ég  fylgst með þessari ,,glæpastarfssemi” þeirra og á ekki orð.  Ég get nefnt sem dæmi að nú vantar mig flug bara aðra leiðina Osló – Reykjavík í Desember, til þess að taka þátt í gleði ljóss og friðar með löndum mínum.  Á níu daga tímabili kostar þessi flugferð 84.120 kr. alla dagana.

Nú ef ég athuga flugferð fram og til baka Osló – Reykjavík ( 16. desember heim og 12. janúar út) kostar flugið 37.910 kr.  Þetta þýðir, að það er hagstæðara fyrir mig að kaupa flug fram og til baka þó ég þurfi ekki flugið til baka.  Ekki nóg með það að ég get keypt tvö svona flug og átt 8.300 kr í afgang. 

Því er það ljóst á könnunum mínum, að ef fólk þarf að kaupa flug aðra leiðina þá hækka þeir sætavalið mjög mikið, í þessu tilviki glæpsamlega mikið.  Það er greinilega nóg af sætum eftir í vélinni, annars myndu þeir ekki bjóða upp á svona ,,ódýr“ sæti fyrir þá sem kaupa flug fram og til baka.

Er maður skoðar flug með Iceland-express þá hækka þeir ekki verðið, kaupi maður bara aðra leiðina.  Sem dæmi rukka þeir tæplega 30.000 kr. fyrir flug frá Kaupmannahöfn til Reykjavíkur þann 16. desember.  Hægt er að fá ódýrt flug héðan frá Osló til Köben á 8.000 kr. 

Þá er staðan sú að það er hagstæðara fyrir mig að fljúga til Kaupmannahafnar og þaðan til Íslands en að versla við Icelandair.  Enda er það ekki beint aðlaðandi fyrir almenning að láta koma svona fram við sig og versla við Icalandair.

Þá er rétt að vara fólk við því að kaupa miða í fyrstu atrennu, því flugverð þeirra flakkar um þúsundir króna og stundum á annan tug þúsunda króna á einum sólahring.  Þetta þekkist ekki hjá flugfélögum erlendis s.s Norwegian sem að höfðu sömu verð á margra vikna tímabili allt til brottfaradags þegar ég þurfti á þeirra þjónstu að halda. 

Ekki er hægt að fela sig bak við það og segja að engin aðsókn hafi verið í vélina, heldur varð hún full á endanum, en verðlagningin var til fyrirmyndar og þurfti maður ekki að hafa áhyggjur að vera ,,rændur” þó að maður myndi kaupa miðann vikur fyrir brottför.

Þá er þetta ekkert einsdæmi sem þeir geta afsaka sig á bak við núna.  Á haustdögum kannaði ég aðrar flugleiðir Icelandair til borga í Evrópu og sömu sögu var að segja sem ég hef hér áður sagt frá, ætlaði maður að panta flug aðeins aðra leiðina.

Mér þykir framkoma þessa gamla flugfélags sorgleg og er félaginu alls ekki til framdráttar, þeir gera lítið úr viðskiptavinum sínum sem munar flestum um hverja krónu.  Þeir nýta sér einokunaraðstöðu (þó látið sé líta út fyrir annað með flugi SAS til Íslands, sem greinilega er baktrygging Icelandair!) sína sitt sem er til skammar.

Þetta er félag sem megnið af íslensku þjóðinni hefur stutt í gegnum áratugi og hefur því miður oftast neyðst til þess, félag sem hefur skilað miljarða hagnaði á sl. ársfjórðungum og er ljóst að viðskiptavinir þess fá ekki að finna fyrir þessum hagnaði.

Ég get nefnt sem dæmi um hrakandi þjónustu Icelandair, að síðdegisflug félagsins, þann 23. nóvember til Osló frá Íslandi beið mikinn hnekki í mínum huga og flest allra farþega.  Þjónustufólkið var undirmannað (held þrjár flugfreyjur) sem náðu ekki að bjóða öllum að kaupa sér að borða áður en vélin lenti á Gardemoen og var enn verið að selja veitingar þegar 20 mín voru í lendingu.  Þetta er hluti af sparnaðaraðgerðum þeirra að bjóða ekki lengur upp á mat, heldur að bjóða upp á uppsprengt verð af vörum framleiddum af  Sóma.  Tími til sölu á varningi (snyrtivörum o.þ.h. var enginn).  Hér er á ferð félag sem er á miklum villigötum og væri einhver sönn samkeppni á þessari flugleið, myndu þeira brátt fljúga á milli með tómar vélar vegna þess að viðskiptavinirnir væru farnir annað.  En það er nú einu sinni svo að almenningur hefur ekkert val og því komast þeir upp með svona framkomu án þess að biðja afsökunar.

Hér er þó ekki hægt að sakast við þá sem hafa þjónustað mann um borð í þessum flugferðum, enda gerir starfsfólkið sitt besta þó svo að það geti verið erfitt.  Icelandair hefur góða starfsmenn sem eru til fyrirmyndar, en stjórnendur þess mega skammast sín.

Hér að neðan má sjá þau verð sem koma upp þegar maður athugar flug með félagi “glæpa” á næstu vikum.  Bæði á flugleiðinni Osló – Rvk & Frankfurt – Rvk.

Virðingarfyllst og með von um að þessi mál verði könnuð,

Helgi Einarsson – Háskólanemi

Einnig sett fram á www.helgie.wordpress.com

verðlagning_icelandair.pdf

Jóla, jóla jóla

•23 nóvember, 2008 • Ein athugasemd

Bara geðveikt fyndið………

 

Það styttist í tíma gleði og friðar!

Sameinuð stöndum vér

•14 nóvember, 2008 • 2 athugasemdir

-sundruð föllum vér!

Valhöll, hús þeirra bláu var máluð rauð að hluta.  Skiljanlega eiga Sjálfstæðismenn ekki orð yfir þessum gjörningi.  Einn þeirra sem er dapur í bragði er Andri framkvæmdarstjóri X-D og sagði hann við Fréttablaðið í dag: ,,Það er dapurlegt að fólk fái útrás með þessum hætti á tímum þar sem mestu skiptir að standa saman og vinna að uppbyggilegri lausnum.“ 

Allt í góðu Andri minn, það er vissulega mikilvægt að vinna að uppbyggilegri lausnum en þegar fólk hefur ekki séð neinar lausnir núna á fjórðu eða fimmtu viku (í raun í marga mánuði) frá yfirvöldum þá eru sumir orðnir örvæntingarfullir.  Það er svo einkennilegt að þegar fólk mótmælir eða fremur spellvirki að þá myndi maður halda að sá sem verður fyrir mótmælunum ætti að líta í barm sinn og spyrja sig hvað hef ég gert rangt, er ég ekki að standa mig?  Ég held að yfirsstjórnarrjómanum í Sjálfsstæðisflokknum hafi ekki enn dottið þetta í hug, enda er það líklegast kennt á sjálfsstyrkingarnámskeiði þeirra undir luktum dyrum að þeir geri ekkert rangt, þeir séu hinir útvöldu til þess að fara með völdin í þessu landi.  Björn gamli Bjarna heldur það a.m.k. ennþá.

Ég er ekki fylgjandi óspektum og að málningu sé sullað á hús, en þetta er nú bara hús en ekki lifandi vera, við skulum muna það!  En ég skil hinsvegar vel að sumir vilji sjá einhverja framför, en við Íslendingar erum ekki þekkt fyrir að vera góðir mótmælendur og hvort það sé af því að við séum öll svona bæld eða skynsöm skal ég ekki segja.  Svo getur vel verið að þarna hafi verið unglingar á ferð sem vilja bara vera með.

Hann nefnir að nú á tímum sé mikilvægt að standa saman.  Það er ekkert sjálfssagðara en að standa saman, en stundum eru ekki allir í sama hóp.  Ég skal standa með öllum ef þeir verða meiri menn og viðurkenna mistök og taka pokann sinn, en þangað til má ég fyrirlíta alla þessa glæpamenn og óstjórnendur.  Tökum ýkt dæmi: í stríðum þá standa fórnarlömdin saman og svo eru annar hópur sem stendur saman sem eru valdaforingjarnir.  Ég held að það síðasta sem að gyðingarnir hefðu gert í síðari heimsstyrjöldinni væri að ganga í lið með Nasistum og Hitler….nema þá bara til þess að hjálpa þeim að ná ætlunarverkinu sínu…að sökkva dýpra….sem betur fer tókst ekki.

Ég ætla ekki að dæma um hvort að þetta sé rétti tíminn til þess að fara í kosningar, en það má mótmæla þessum yfirgangi og fá ríkisstjórnina til þess að t.d. stofna þjóðstjórn og segja að kosningar yrðu að vori…bara þessi einfalda lausn myndi róa margann.  Þegar að kosningadegi kæmi veit ég ekki hvað maður myndi kjósa, það mætti segja að mikill hluti þingheims sé vanhæfur.  Ég meina Framsókn var nú við stjórnvölin frá 95-07, þannig að þeir eru mun verri menn en Samfylkingin.  Ef þetta er ekki rétti tíminn til þess að stofna stjórnmálaflokk þá veit ég ekki hvenær hann er, einhver með? hahaha.

En eigði öll rosalega góða helgi, ég ætla svo sannarlega að eiga hana.  Líka Andri vona að helgin verði honum góð.  Langaði bara að fá smá gleðilega útrás, alltaf langað að prufa að vera með í henni 🙂

Helgi

Maður lifir bara einu sinni….

•11 nóvember, 2008 • 2 athugasemdir

….söguðu þeir báðir, Benni & Ragnar, við mig þegar flestir norðmenn voru komnir hálfa leið með að fullnægja svefnþörfum sínum í nótt…klukkan s.s. orðin margt og við enn vakandi. 

Ég kíkti s.s. til Ás í gær eftir skóla til Hrafnhildar, Ragnars og Benna gests.  Þar var boðið upp á svaðalega veislu og það á mánudagskvöldi…ég fékk eiginlega samviskubit að tyggja & drekka þetta allt, en vá hvað það var gott.  Maður verður auðvitað að nýta tækifærið þegar gestur kemur til Noregs og eiða smá tíma með honum og fjandinn hafi það nema að það sé veisla (ekki það að ég skaffaði ekkert í hana, bölvaður dóni…námsmaður). 

En ég, drengurinn, ætlaði auðvitað að taka lestina heim um kvöldið en sjálfsagi minn er stundum lægri en núll og því fór ég aldrei í lestina.  Ákvað bara að fá að gista hjá þeim ,,hjónum“ og Benna í þessa nokkra tíma sem svefn var í boði og fara beint í skólann, það var bara allt of gaman hjá okkur til þess að ég færi heim um mitt kvöld.  Enda rökstuddi ég þetta með því að ég vildi ekkert vera á lestarstöðinni um miðnætti, með dópistunum og glæpamönnunum….það viljum við ekki.  Alltaf voða gaman að koma til Ás og eiða tíma á Skogveien nr.X, gott fólk sem býr þar.

En af ákvörðunum um afleiðingar fylgja orsakir og þarf ég núna að taka smá törn við þar sem að ég þarf að sýna kennaranum eitthvað á morgun og þarf ég því að vera duglegur. 

Helgin var rosalega skemmtileg, nema sunnudagurinn.  Í meginatriðum fór hún í spjall, sína fólkinu skólann, þá borðuðum við saman og svo var ég með fyrirpartý fyrir þetta íslenska sveitaball og ég trúði bara ekki hvað það var góð mæting hjá Físnurum, það mætti alveg hellingur….voða gaman…..þá var farið á ballið.  Það skemmtu allir sér voða vel á þessu balli og er það gott að vita.   

En virkilega góðir og skemmtilegir dagar að baki.  Gaman að hitta Benna og auðvitað Ásingana, þá er líka alltaf að hitta þessa íslensku námsmenn hérna í Osló. Eðalfólk alveg.  Allir þessir náðu að gera svona rosafína stemmingu úr þessu balli.

Jæja best að fara að borða kvöldmatinn, kornflex í kvöld, það er sko veisla.

………þangað til næst.

Mikið að gerast

•7 nóvember, 2008 • 3 athugasemdir

Jæja það er nóg að gera í þessum skóla, því verr og miður má kannski segja.  Ég veit ekki alltaf hvert kennarinn minn er að fara og veldur það miklu hugarangri á tímum, en vonum að við mætumst á miðri leið fyrir jól.

Ég er að fá gest, hann er reyndar ekki bara að koma og heimsækja mig heldur fleiri Íslendinga.  Þetta er hann Benni vinur og er mikil tilhlökkun að fá drenginn, hann fær mikið hrós að leggja til landsins þar sem að bjórinn kostar….uss ég ætla ekki einu sinni að segja það. 

Hann kemur í kvöld og ætlum við o.fl að skemmta okkur vel meðan hann stoppar hérna.  Ragnar frá Ási ætlar að koma á sama tíma til borgarinnar og tek ég á móti þeim á lestarstöðinni….svo gaman að hitta fólk.

Á laugardaginn ætla allavega tvær Ásingadömur að bætast í hópinn, Hrafnhildur & Sigga, það verður kannski eitthvað þvælst um borgina ef veður verður skaplegt. Svo þarf að elda góðan mat og þá er stefnan tekin á íslenskt sveitaball hérna með öðru fólki, vonandi verður það bara gaman.

Þannig að lærdómurinn situr eitthvað á hakanum um helgina, en eins og það sé ekki í lagi.  Löngubúinn að sjá að lærdómurinn er ekki lífið, hvað ef maður myndi nú hrökkva upp af á morgun, ekkert búinn að gera nema að læra.  En þetta er nú kannski ekkert til að vera að grínast með, best að vera raunsær og segja að hann skipti málið þegar til framtíðar er litið og að ég verði í góðu standi, enda mjög hamingjusamur með lífið.

Later og góða helgi.

H

Obama

•4 nóvember, 2008 • 3 athugasemdir

Þá kemur bráðum í ljós hvort að Bandaríkjamenn hafi öðlast einhverjar gáfur frá síðustu kosningum.  Ég held og vona það heimsins vegna að þeir kjósi ,,rétt“ svo að andúð heimsins á þessu veldi minnki á komandi árum.  Ég held að engin eða fáar þjóðir séu á svo miklum villigötum í svo mörgum málaflokkum, nema þá kannski íslenskir ráðamenn sem stjórna okkar landi, haha.  Annars er þetta kosningarkerfi þeirra svo sérstakt að það kæmi manni ekki á óvart þó að Cain komist í Hvíta húsið og reyni að toppa vitleysinginn Bush.