Tungumál

•3 nóvember, 2008 • 3 athugasemdir

Fór í stuttan GIS tíma í dag.  Kennarinn spurði hvort að hann mætti kenna á norsku og var þá horft á mig, ég játti því.  Já flott þá kenni ég þetta á sænsku sagði hann, en hann er sænskur kallinn.  Ég hef nú ekkert verið mikill aðdáandi sænsku en það er ekki mikill munur á kúk og skít þannig að þetta reddaðist auðvitað…enda er markmiðið að læra þessa snilld.  Ég vorkenndi greyið belganum hinsvegar sem kom of seint og gat því ekki mótmælt hvaða tungumál kallinn talaði.  Hann skildi ekki baun, en hann gat farið í draumalandið á meðan hann masaði á sænsku.

Hausinn af….

•1 nóvember, 2008 • 5 athugasemdir

Nú er þetta land alveg að fara með mig.

Fór út í hraðbanka áðan og tók út pening, alveg ágætis upphæð þegar búið er að margfalda hana með 18.  Fór því næst í búðina til þess að kaupa mér rakvélablöð, þar sem að rakstur hefur ekki farið fram í 8 daga.  Hefði ég vitað hvað ég þyrfti að punga út fyrir þetta og að skapið yrði ekki gott eftir þessa ferð þá hefði ég nú bara haldið mig heima og safað skeggi næstu vikurnar.  Þessi bölvuð blöð kostuðu rúmlega 2500 kr eftir umreikningu í þetta íslenska hland sem kallast mynt.  Það fór ýmislegt í gegnum hugann þegar ég var að borga þetta og fékk líklegast öll ríkisstjórnin higsta og seðlabankapakkið um leið.  Ef einhver ætlar að verja þessa bjána og segja að þeir eigi ekki hluta af þeirri sök sem er í gangi þá veit ég ekki hvort að það ætti að commentast hér. 

Ég veit ekki hvað ég er búinn að fara oft í hraðbanka undanfarið, tek oftast lítið út í einu en alltaf er þetta búið og það er ekki eins og það sé eintóm veilsa í kofanum.  Mjólk og brauð kosta bara hausinn af og þetta er alveg að fara í mínar fínustu núna um þessi mánaðarmót, halelúja.

Jæja hafið kvöldið gott, nema þessir ríkispúkar vona að þeir hafi það bara nokkuð slæmt…

Heppinn maður!

•31 október, 2008 • Færðu inn athugasemd

Hann Vignir hefur nú stundum fjallað um mig á blogginu sínu, stundum hafa sögunar ýkst eitthvað enda á þetta að vera skemmtileg lesning.  Ekki vissu allir sem lásu bloggið hans að þetta væru ýkjur og hélt mamma í byrjun haustsins að ég væri lentur í slæmum félagsskap þegar hann sagði frá því þegar ég átti að hafa klárað rauðvínsbeljuna, koníakið (veit ekkert hvernig það er skrifað) og farið því næst á strippbúllu og ég veit ekki hvað og hvað…..en allur misskilningur var leiðréttur síðar 🙂

Blessaður kallinn er stundum aðeins utanvið sig, eða kannski að það sé svo mikið að gerast að augun ná ekki að greina allt þetta áreiti.  Fyrir nokkrum vikum vorum við á gangi, hann þurfti ógurlega að senda sms og mátti það sko ekki bíða þangað til við værum komnir á leiðarenda.  Ég gekk aðeins á undan greyinu og ákvað svo að bíða eftir unglingnum, í sömu andrá labbaði maðurinn á stætóskýli!!!  Hahaha, þetta var yndisleg sjón.  Hann gekk nánar tiltekið á auglýsingu á hlið skýlisins og skildi ekkert í því hvað það var að þvælast þarna fyrir honum. 

Nú um daginn fórum við upp í Storo, verslunarmiðstöðina.  Þegar við vorum á útleið var sjálfvirki hurðaropnarinn eitthvað seinn á sér…ég fór út um miðjuna þar sem að hún var nýopnuð….Vignir hinsvegar fór aðeins til hliðar og auðvitað beint á hurðina sem var að opnast.

Ég fann eitt video sem að sannar það að fleiri lenda í því að labba á eitthvað, hverjir hafa svo sem ekki lent í því.  Ég ætti ekki að segja mikið enda smá hrakvallabálkur.

http://kvikmynd.is/video.asp?land=&offset=27&id=7490

Það er frábært að hafa svona skemmtara með sér hérna í Osló.  Annars er það að frétta að maðurinn ætlar að bjóða mér í mat í kvöld og er ég mjög þakklátur fyrir það, til þess að þakka honum þá fær hann þessa færslu að gjöf.

Bless október

•30 október, 2008 • 3 athugasemdir

Þá er þessi mánuður senn á enda, eintóm gleði 🙂

Í gær dröslaðist ég fram úr rúminu, gekk að glugganum og kíkti á hitamælirinn.  Leit á hann, 1°c úti, þá náðu augun að greina hvíta jörð.  Þá fyrst vaknaði ég, þurfti ekkert að fara í bólið aftur.  Þetta var nú ekki mikið, ca. 1 cm en í dag er allt orðið eins og það var.  Annars er orðið leiðinlega dimmt hérna, en myrkur skellur á rétt fyrir klukkan fimm.

Verkefnið okkar Vignis gengur ágætlega, höldum við.  Svæðið sem við völdum okkur þekur 450 ha þannig að við ættum að hafa nóg að hugsa um.  Erum með tvo kennara og svo einn aðstoðarkennara sem er nýútskrifuð sem landslagsarkitekt.  Það er meira hvað þetta unga útskrifaða fólk ætlar að bjarga heiminum og pirra okkur Vigni mikið….spurning hvað verður um okkur.  Haha, nei ég segi svona, það getur samt verið misvísandi að útskýra einhverja hugmynd þrisvar sinnum fyrir þremur hausum og fá svo tólf ráð um hvernig eigi að massa hlutina.  En bara gaman að þessu.

Helgin er frekar óráðin, ætli hún fari ekki bara í að spara pening og læra en vonandi líka í eitthvað skemmtilegt, ekki það að það sé ekki gaman að læra 🙂  Talandi um pening, við göngustíginn nálægt skólanum er oft maður að bettla pening, situr þar með mynd af tveimur börnum.  Hann var þarna í morgun um níu leitið og líka þegar haldið var heim á leið um fjögur.  Ég held að hann hafi ekki afrekað mikð í dag blessaður en mikið ofboðslega vorkenni ég karlgreyinu.  Hann virðist vera í lagi þ.e.a.s. ekki fullur eða í dópi og skil ég bara ekki af hverju hann er ekki að vinna, maður á besta aldri.  Jæja nóg um hann, vona að það komi bjartari tímar fyrir hann og aðra.

Góða helgi, Helgi.

Andstæður

•27 október, 2008 • Ein athugasemd

Í gær fórum við félagarnir í ferðalag til og um Riksvei 7, en þangað tekur tæplega tvo tíma að aka.  Tilgangurinn var verkefni í einum áfanganum að kanna áningarstaði staðsetningu o.fl.  Þetta var ljómandi ferð og gaman að komast út úr þessu borgarumhverfi og sjá sveitina og litlu þorpin, aðeins mannlegra eða kannski ómannlegra því maðurinn hefur ekki hlammað sér jafn mikið þar…allavega.  Við fengum alveg frábært haustveður sem að spillti ekki fyrir.  Þessi ferð tók megnið af deginum og komum við heim seinnipartinn.  Vignir var með GPS tæki í bílnum, sem við höfðum fengið lánaðan.  Það eru þó kostir og gallar við þetta tæki, eflaust bara kostir ef maður kann á það, en það dró okkur um nokkrar götur Oslóborgar án þess að eftir því hafi verið óskað.

Hún Helga mín, sendi mér myndir í gær sem hún tók af Dalvík á laugardaginn og set ég eina hérna inn.  Það bættist víst slatti af snjó við á þann sem fyrir var nóttina á eftir 🙂  Ég væri alveg til í að vera þarna og moka, væri bara gaman.  Hlakka bara svo til að komast heim, svo einfalt er það!

Heimili okkar og snjór á Dalvik

Heimili okkar og snjór á Dalvík

Later!

Halló!

•25 október, 2008 • 2 athugasemdir

Stundum veit maður ekkert hvað maður á að skrifa í þessa titla hérna 🙂

Í gærkvöldi var farið að hitta aðra íslenska námsmenn hérna í Osló.  Það áttu allir að koma með sína köku, brauðrétt eða þvíumlíkt og er þessi atburður kallaður fermingar- veisla….vegna þess að þegar allir koma með eitthvað þá verður borðið hlaðið kræsingum.  Með þessu drakk fólk sína drykki sem hörnuðu hjá flestum eftir því sem á kvöldið leið.

Mitt framlag á borðið voru litlar kerloggskökur….áttu fyrst að vera hrískökur en það var ómögulegt að finna það í búðinni.  Ég held að þær hafi verið ætar…allavega kláruðust þær.  Þegar leið á kvöldið var allavega ein komin með brjóstsviða og var skuldinni skellt á mig og minn saklausa rétt, vegna blöndu á sýrópi og dökkusúkkulaði= brjóstsviði…..ef ég skildi þetta rétt.  Mikil speki þarna og hafði ég bara gaman af henni, en ég vona að brjóstsviðinn sé farinn hjá viðkomandi þannig að lífið geti haldið áfram sinn vanagang:)

Kvöldið var mjög skemmtilegt og er þetta eiginlega ótrúlegt hvað það hefur valist vel inn í landið af íslenskum námsmönnum hingað, alveg stór skemmtilegt fólk, spurning í hvaða landi vandræðagemsanir eru í. haha

Annars hefur dagurinn verið frekar rólegur og er stefnan á að kvöldið verði svipað.  Á morgun förum ég og Vignir í ferðalag.  Við þurfum að keyra ca. tvo tíma í norður til þess að skoða og taka út sex áningarstaði og keyra svo aftur heim, þetta er verkefni okkar í einum áfanganum.  Þetta verður bara skemmtilegt að fara út fyrir borgarmörkin, en ég held að spáin sé ekkert svo góð…það kemur í ljós….allavega engin snjóflóð á þessari leið.

Á miðnætti gerast svo skemmtilegir hlutir, þá breytist tíminn hérna þannig að nú verður klst munur á NO & ÍS í stað tveggja klst.  Það verður mun betra svona upp á samskipti mín við Ísland 🙂  Mig grunar þó að þetta geti ruglað hann Vigni í fyrramálið, en við ætluðum að hittast kl 9…hann væri vís með að breyta sínum tíma á New York tíma….blessaður kallinn.  Hausinn var víst eitthvað að angra hann í dag, mig bara dettur ekkert í hug sem gæti skýrt þá líðan hans…..hahahahah….annað en hjá mér, svo ferskur eftir gærkvöldið…enda einstaklega skynsamur 🙂

Í dag var svo Steingrímur J. sá eini í Osló, hann hélt fund hérna með Íslendingum og hefur væntanlega ekki verið orðlaus þar.  Ég hafði nú áhuga á að fara, til þess að sjá aðra og láta aðra sjá mig, hélt þó að ég væri að fara í smá rannsóknarferð með Vigni seinnipartinn, en það breyttist en ekki fór ég á fundinn.  Ég finn mér þá bara einhvern fund seinna til þess að fara á 🙂

Jæja nóg í bili!

Föstudagur 24. október

•24 október, 2008 • 2 athugasemdir
Bara svona til þess að setja eitthvað inn 🙂
Þetta er gleðilegra en síðasta færsla, alveg óþarfi að lesa hana….allavega ekki misskilja hana. haha
20. september

20. september

14. október

14. október

Góða helgi góða fólk, njótið hennar!

43. vika ársins já!

•23 október, 2008 • 5 athugasemdir

og hún er rúmlega hálfnuð, ekki slæmt það.

Ég hef nú ekkert verið að tjá mig hérna undanfarið og ætli það megi ekki skýra það af lægð sem gekk hér yfir, ekki var það veðrafyrirbrygði heldur frekar hugarástandið sem truflaði svona rosalega…held ég hafi ekki lent í þessu áður, reyni nú að vera frekar jákvæður…það er skemmtilegra.  Helsta skýringin á þessu falli er að fjarlægðin á milli landa hentar mér ekki alveg þar sem að ég vill fá að hitta mína nánustu oftar en gengur og gerist…..sem sagt að vera ekkert í öðru landi!  Hefur þetta lýst sér í einbeitingarskorti, svefnleysi og stanslausu urri á Vignir…..haha nei allavega ekki það síðasta (eða ég vona ekki Vignir minn).  Annars er hann lítið skárri og er þessi dvöl okkar án fjölskyldnanna með því erfiðara, allavega svo ég tala fyrir mig.  Best er þó að taka einn dag í einu og vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og á….þannig að ég sé ljósið 🙂

Jæja nóg af tuði, þeir skynsömu skilja mig 🙂

Í vikunni áttum við að velja okkur lokaverkni sem við vinnum að fram að jólum, þetta er nokkur frjálst nema að maður verður að taka fyrir Groruddalinn og vinna að þeim vandamálum sem þar eru fyrir.  Það máttu vera tveir/tvö/tvær saman í hóp og ákváðum ég og Vignir að vinna saman, enda höfum við aldrei prufað það.  Það kemur svo í ljós hversu vel hann lætur af stjórn en ég vona það besta….hahaha….en annars þá verður þetta vonandi bara skemmtilegt verkefni og að nógu að vinna næstu vikurnar.  Í gær þurftum við svo að halda smá tölu fyrir kennarana og segja hvað við ætluðum að gera og færa rök fyrir því og tókst það nokkuð vel….held ég.

Annað kvöld ætlum við íslensku námsmennirnir í Osló að hittast og eiða kvöldinu saman, reikna með að það verði skemmtileg stund :)……svo er það bara að læra um helgina og vera duglegur.

Hafið það gott þangað til næst 🙂

Eftirsóknarverðir Íslendingar

•15 október, 2008 • 3 athugasemdir

Já ég veit ekki hvort að það sé eftirsóknarvert að vera Íslendingur í Noregi eða ekki.  Þessu ágæta fólki hérna þykir þetta stórmerkilegt, hvernig þessi litla þjóð náði að detta svona á bossan og brjóta rófubeinið um leið.  Fólkið í skólanum hefur mikinn áhuga á þessu og spyr mikið.  Nú sjá þau ný tækifæri opnast, versla jólagjafirnar á Íslandi, það er þá eitthvað nýtt…en að sjálfssögðu jákvætt ef verðalagið heima helst eins og það er í dag….sem það gerir nú varla.

Á mánudaginn fór ég í smá blaðaviðtal við eitthvað háskólablað hérna um hvernig ástandið hefur áhrif á Íslendinga hérna í Noregi.  Ég var nú ekkert að farast úr spenningi en hún, blaðakonan, ætlaði ekki að gefast upp og lét ég því undan.  Sveinn, félagi minn úr skólanum var einnig með í þessu viðtali.  Í gær kom svo ljósmyndari í skólan og myndaði okkur í bak og fyrir, hélt ég að þessu myndi aldrei ljúka. 

Það er áhugavert hvernig fólk í þessum bransa nær að fá fréttina sem það vill fá, þannig vildi ljósmyndarinn hafa okkur alvarlega og alls ekki brosa á myndunum….það væri ekki viðeigandi.  Það varð auðvitað til þess að ég gat ekki annað en brosað en náði mér niður þar sem að alvörugefnin var að drepa mig, rétt eins og flesta aðra daga ársins.

Í dag hringdi svo einhver útvarpsmaður sem vildi mjög fá mig í viðtal og ræða þetta ástand.  Ég sagði honum að ég væri upptekinn og hann gæti prufað síðar, vona bara að hann gleymi mér….kemur í ljós.  Þetta er ekkert það mest eftir mest eftirsóknasta að lenda í viðtali þar sem að maður á aðeins að segja allt hið svartasta, þannig að maður ratar ekki heim að viðtalinu loknu vegna myrkurs 🙂

Mér var bent á í skólanum að ég ætti auðvitað bara að fara í sem flest viðtöl og taka greiðslu fyrir það, það er ekki slæm tilhugsun.  Þá gæti fyrirsögnin orðið eitthvað á þá leið: ,,Halar inn peninga meðan hann horfir á þjóð sína hverfa aftur í moldarkofana.“  Þetta er nú meiri vitleysan sem maður malar hérna .

 Á morgun er svo fundur um ástandið, haldinn af Íslendingafélaginu í Ósló.  Þangað kemur frú sendiherra og ætlar að tjá sig.  Held að það sé gífulegur áhugi hjá mér og Vigni að kíkja þangað, aðallega til þess að athuga hvort að þeir bjóði nú ekki upp á eitthvað….við kannski spörum okkur eina kvöldmáltíð og fáum að taka afganga með heim, hahahaha.

Skólinn er fínn þessa dagana og er workshop í gangi þessa vikuna, sem endar með lítilli kynningu á föstudaginn.  Við erum sem sagt að kafa ofan í scenarios, strategies and identifying projects, ég ætla nú ekkert að gleðja ykkur með því að þýða þetta enda miklu meira töff á svona útlenskuGífurleg stemming þar á bæ.

Annars sagði Björn gamli Bjarnason eina góða setningu (eða skrifaði á bloggi sínu): ,,aðeins með sterkum Sjálfstæðisflokki og undir öruggri forystu hans gæti þjóðin komist heil frá þessum hildarleik.“  Ég velti því bara fyrir mér hvort ekki sé hægt að koma manninum í snatri á Hrafnistu?  Það er ekki annað hægt en að hlægja þegar maður les þetta, ætli hann hafi íhugað að vera með uppistand í Þjóðleikhúsinu á næta ári….ég myndi þá bjóða Helgu minni á sýninguna….en ætli hún myndi ekki fyrr fara á einhverjar aðrar samkomur í stað þess að hlusta á hann, haha.  Ég hélt að það væri lifandi fólk sem að ætti möguleika á að gera hlutina betri ekki einhver samtök, ég held að nú um stundir sé bara fáum treystandi fyrir stjórnartaumunum þarna.

Best að enda hérna……kveðjur Helgi

Ganga…

•12 október, 2008 • Færðu inn athugasemd

Jæja, þá er þessi helgi senn á enda og skulum við vona að hún komi aldrei aftur, hehe….það gerðist nefnilega ákkúrat ekki neitt….en brosum að því 🙂

Vignir bauð mér í göngutúr á föstudaginn, svona þar sem að það var enginn skóli.  Hann kom heim til mín og sagði að það væri voðalega gott veður úti, sem það og var.  Gönguferðin var kannski búinn að vara í 20 mín þegar það byrjaði að rigna og það ringdi og ringdi….en alltaf gengum við.  Það var ekki fyrr en við vorum komnir niður í bæ að við settumst inn á einhvern stað og slöppuðum af.  Þetta var þó hressandi og skemmtilegt. 

Á þessari göngu gengum við framhjá blokk, ekki langt frá skólanum okkar þar sem að fólk hafði hengt fullt af skilaboðum á svalirnar sínar.  Ég hef nú ekki séð svona áður en kannski virkar þetta í borg hinna hörðu efna.  Þetta er nú hálfgerð íslenska sem stendur þarna en til þess að taka af allan vafa þá stendur: ,,Við búum hér, við sjáum þig.  Ekki kaupa dópið þitt hér!“

Gaman að búa þarna

Gaman að búa þarna

 Svo læt ég fylgja eina mynd af haustinu, en það hefur verið mjög gott veður, ca. 12°c og léttskýjað.

,,Haustið"

,,Haustið"